mánudagur, desember 08, 2008

Þakkargjörð

Við fórum í rosalega flott Thanks-giving boð hjá frændfólki okkar í Hafnafirðinum á dögunum. Við erum nefnilega svo heppin að hafa fengið að kynnast þessari skemmtilegu bandarísku hefð því Guðbjörg og Jakob hafa haldið fjölskylduboð að hætti kanans á hverju ári síðan þau flutt aftur heim frá USA. Veislan byrjar yfirleitt rétt eftir hádegi og stendur fram á kvöld. Við sitjum hátt á annan tug manns við langborð og njótum kræsinganna enda er Guðbjörg með betri kokkum líklegast á hnettinum bara. Að þessu sinni var 12 kílóa kalkúnn borinn á borð með vægast sagt geggjuðu meðlæti sem bragðast eins og kokkurinn hafi margútfært uppskriftina og sé nú búinn að finna þá einu sönnu sem allir braðglaukarnir eru sáttastir við. Eftir að hafa stútfyllt sig af mat og þakkað fyrir það sem árið og lífið hefur gefið hefur skapast hefð fyrir því að fara í göngutúr. Að þessu sinni var jólaþorp þeirra Hafnfirðinga heimsótt í 5 stiga gaddi og handverk gaflaranna skoðað. Þegar heim var haldið beið svo rjúkandi súkkulaði og einhver mesta dýrindis kaka eftir göngugörpunum....
Það sem var í fyrsta sinn dálítið átakanlegt voru þakkirnar. Við þökkum vissulega fyrir allt sem við eigum, hvert annað, börnin, heilsuna og lífið en syrgjum um leið svo ómissandi konu sem erfitt er að vera án. Það var því skrítin stund að þakka þegar sorgin er enn svo sterk.
Birgir Steinn spurði í fyrsta sinn hvað allir væru að gera og þegar ég útskýrði fyrir honum að fólk væri að þakka fyrir það sem það ætti í lífinu, fyrir það sem gleddi það þá sagði hann. " Ég þakka fyrir að vera frjáls, fyrir að eiga mömmu og pabba og frænkur"

Já það verður seint hægt að toppa boð eins og þau gerast í Firðinum það er víst.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ.

Þetta eru nú meiri snillingarnir sem þú átt! Alveg yndislegar sögurnar af þeim.

Kveðja,
Linda.

Ásta Sóllilja (Sólin) sagði...

Þetta er lífið í hnotskurn. Allt saman. Góðar stundir sem maður deilir með fjölskyldunni. Sorgin sem stundum er svo óskiljanlega ósanngjörn. Gleðin sem minnir mann á hvað lífið er dýrmæt gjöf. Frelsið sem gerir okkur kleift að finna fyrir hvoru tveggja og þakkirnar sem við færum fyrir allt þetta.

Birgir Steinn á hrós skilið fyrir sína þökk. Eða öllu heldur foreldrar hans. Þeirra vegna veit hann hvað það er sem er gefur lífinu gildi.

Þið hafið verið óendanlega sterk allt þetta ár Anna mín. Knús til þín. Ásta.

Anna K i Koben sagði...

Takk fyrir falleg orð báðar tvær og kveðjur á móti til ykkar

knús anna

Guðrún Birna sagði...

Spekingurinn!
Þið eruð öll yndisleg og ég þakka fyrir að eiga svona góða vini.

xoxo
GB

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir óhóflegt lof elsku Anna. En þetta boð var sérstaklega mikilvægt fyrir okkur þetta árið og ég upplifði svo sterklega hvað við erum öll heppin að eiga hvort annað.

kveðja, Guðbjörg

Ljónshjarta sagði...

Ég hitti síðast í kvöld kollega Ingveldar úr Iðnskólanum, hennar er klárlega saknað af öllum sem nutu þeirra forréttinda að kynnast henni.