Ég á vinkonu sem hefur beðið þolinmóð eftir storkinum nú í dágóða stund. Þessi góða kona hefur allt sem þarf í móðurhlutverkið. Hún er góð, réttsýn, þolinmóð, skynsöm og reglusöm. Alveg hreint afbragðs fyrirmynd.
En lífið er ekki alltaf sanngjarnt, það er víst og áfram þarf hún að bíða.
Ég hitti þessa vinkonu um daginn og hún sagði mér að suma daga væri þolinmæðin á þrotum. Hún væri orðin þreytt á eilífum spurningum frá hinum og þessum sem hún þekkti varla neitt um það hvort hún ætlaði nú ekki að fara að "koma með eitt stk. barn". Hún mætti varla skreppa út í hádeginu án þess að fá óþægilegar spurningar frá samstarfsfólki sínu eins og "hvað er mín nokkuð að koma úr skoðun?"
Mér er svo minnisstæður pistill sem ég las eitt sinn í Morgunblaðinu, einmitt skrifaður af konu á þessum ágæta barneignaraldri. Konan stóð í þessu endalausa spurningarflóði og var orðin alveg óskaplega pirruð á því að geta ekki bara sagt - heyrðu þér kemur þetta bara ekkert við.
Það er nú ekki hægt að vera ókurteis þegar maður fær svona vinalegar spurningar.
Hún sagði 4 ástæður fyrir því að fólk (sem greinilega þekkir viðkomandi alltof lítið) ætti ekki að spyrja unga konu þessarar spurningar.
1. Kannski getur hún ekki átt börn
2. Kannski vill hún ekki börn
3. Kannski reynir hún að búa til barn á hverjum degi án árángurs eða....
4. Kannski er hún orðin ólétt og telur ekki tímabært að tala um það.
En svo eru þetta líka einu sinni dálítið persónuleg mál sem maður ræðir nú ekki við hvern sem er og þar er komin 5 ástæðan fyrir því að fólk ætti frekar að ræða um veðrið eins og sönnun Íslendingi sæmir.
þriðjudagur, september 11, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þetta kallast ókurteisi og hnýsni.
kv. ma.
p.s. myndbandið að gaurunum er yndislegt. Takk.
Algjörlega. Álíka og að spyrja "ertu nokkuð komin af stað" á kaffistofunni í vinnunni fyrir framan 10 manns. Man hvað það var freeekar óþægilegt komin 7 vikur.
Skrifa ummæli