Já jafnréttið er við völd á mínu heimili - enda skal rétt vera rétt og algjörlega út í hött að verk heimilisins hvíli á herðum eins aðila.
Það eiga jafn margir að ganga frá eins og rusla til!
Ég tel mig engan kvenréttindafrömuð heldur jafnréttismanneskju (oj klisja). Það pirrar mig alveg svakalega þegar ég horfi uppá konur sætta sig við eða velja að vinna fulla vinnu, sjá um 90% af uppeldi barna sinna, elda matinn, versla inn, sjá um öll þrif og já bara hreinlega gera allt sem snýr að heimilinu auk þess svo að skila sínu inn í kassann. Ég segi pirra því mér finnst þetta rangt en auðvitað kemur það mér ekkert við hvernig fólk hagar sínu lífi. Ekki nema það að við konurnar erum hópur fólks sem hingað til hefur haft á brattann að sækja í kaupum og kjörum á vinnumarkaðinum. Baráttan er ekki bara háð í launaviðtölunum því þetta helst allt í hendur og þá er hópurinn farinn að hafa áhrif á hvern og einn einstakling. Því tel ég verkaskiptingu heimilisins spila mikilvægan þátt í baráttu kvenna á vinnumarkaðinum.
Ég er engan veginn á þeirri skoðun að kynin séu né eigi að vera eins.
Mér finnst feministar þá í róttækari kantinum stundum tapa inntaki jafnréttisbaráttunnar og þá fer þetta eiginlega að snúast um eitthvað bull sem skiptir engu máli. Þær (yfirleitt konur) tapa trúverðuleika - missa fylgi og eru frekar að hafa slæm heldur en góð áhrif á baráttuna (dáldið pirr eftir blogglestur ákveðinna róttækra feminista).
Hverjum er til að mynda ekki sama hvort að peningar kallist þúsund-karl en ekki þúsund kerling. Hvaða rugl er það að ætla að eyða tíma og púðri í að reyna að breyta öðru eins sem skiptir engu máli.
Það sem skiptir máli er gagnkvæm virðing kynja til hvors annars, að vinnuframlag til heimilis og starfs sé svipað milli kynja, að börn fái jafnan umgengnisrétt við báða foreldra í sambúð og að laun séu metin eftir hæfileikum fólks óháð kyni, svo eitthvað sé nefnt.
Jafnræði á heimilum er hins vegar ekkert einsdæmi í dag. Ég man hvað það stuðaði mig hér á árum áður þegar amma heitin og fleiri heldri og vitrari konur fjölskyldunnar töluðu um ákveðna DUGLEGA menn fjölskyldunnar. Það voru þeir sem kunnu að skipta um bleyjur á börnum sínum eða mötuðu þau án ummerkja á fatnaði og gólfi. Þetta er að verða liðin tíð, vonandi og jafnréttistbaráttan því alls ekki bara barátta kvenna því með jafnréttinu sýna karlmenn umheiminum að þeir geta þetta alveg eins og við konurnar.
Held að þetta sé allt spurning um að nenna frekar en geta. Hjá konunum hefur þetta hins vegar ekki verið spurning um að nenna því þessi verk þarf að klára hvort sem þeim þykja þau skemmtileg eða ekki. Eldri kona í fjölskyldunni sagði eitt sinn við mig að ég væri heppinn að standa í þessu öllu saman í dag en ekki fyrir 50 árum eins og hún. Hún sá um heimili og 4 börn og mann. Var oft dauðþreytt eftir erfiðan vinnudag heima en aldrei hefði það gengið upp ef hún hefði lagst uppí sófa með tærnar uppí loft og sagt: "Nú er komið að þér að elda og sjá um börnin - baða þau og fæða og á meðan ætla ég að leggja mig því mínum vinnudegi er lokið" Nei hennar vinnudegi lauk ekki fyrr en allir voru sofnaðir og þá var líka komið að því hjá henni að fara að sofa.
Þessi jafnréttis-færsla er öll byggð uppá því sem á sér stað á heimilinu þessa dagana og eins og ég byrjaði þá ræður jafnréttið ríkjum. Yngri sonur minn hefur nefnilega valið föður sinn sem uppalanda nr.1,2 og 3. Hann vælir sárum gráti í hvert einasta sinn sem faðirinn þarf að skreppa af heimilinu, hendir sér í fang föður síns og kyssir af kæti þegar hann loksins kemst í fang hans eftir aðskilnað og refsar honum með vælitóni fyrir að hafa farið frá sér í nokkrar mínútur.
Ég gæti verið bitur, eftir 9 mán meðgöngu og 10 mán brjóstagjöf, að hann velji annan framyfir mig eins og raun ber vitni. Ég er hins vegar bara glöð enda gæti hann ekki verið heppnari með pabba að mínu mati (enda valdi ég hann). Sá eldri á það nefnilega til að halda að mamman sé sú eina sem geti hneppt buxum, klætt í skó, lesið kvöldsöguna og allt þar fram eftir götunum svo að það er bara gott að verkum sé skipt svona vel á milli okkar. Ég sé líka glampann í augum pabbans. Hann gleðst yfir þessu hlutverki og mér finnst þetta gera okkur foreldrana meiri jafningja.
Við göngum alla veganna nokkuð jafn þreytt og sátt til svefns eftir daginn.....
miðvikudagur, júní 27, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Æðisleg færsla og svo SÖNN! Ég er svo hjartanlega sammála með að jafnréttið byrji heima og það mætti aðeins reyna að prenta það inn hjá fleiri jafnréttissinnum.
Gummi er núna heimavinnandi og ég - eins og þú - gæti orðið sár þegar ég KANN ekki RÉTTU tökin á þeim yngra þegar hann á t.d. að fara að sofa. En ég gleðst líka fyrir Gumma hönd. Það er svoldið gaman að vera AÐAL!
Girl and boy power!
GB
Þú ert algjör snillingur Anna og þetta er svoooo rétt sem þú ert að skrifa. Algjörlega sammála því að jafnréttið byrji á heimilunum - og staðan á heimilinum hefur bæði áhrif á viðhorf karlmannsins til jafnréttis og konunnar til sín og hlutverks síns en ekki síst á viðhorf barnanna til hlutverka kynjanna.
Líst svo vel á að þið séuð að skipta með ykkur "uppáhalds"titlunum. Mér finnst mjög erfitt þegar sá misskilningur kemur upp hjá krílinu á heimilinu að pabbinn kunni ekki að láta kalda vatnið renna, setja belti á buxurnar, reima skóna o.s.fv. Betra að skipta þessu jafnt.
Heyr, Heyr!
kv,Áslaug
Þetta er ótrúlega fín færsla og ég er henni algjörlega sammála og alltaf gaman að sjá að aðrir séu í sömu pælingum, ætli þetta sé ekki það sem foreldrar margra barna eru að hugsa og ganga í gegnum, þetta með uppáhaldshlutverkið t.d., það er ekki lengur sjálfgefið að það sé mamman, þegar að báðir aðilar taka virkan þátt í uppeldinu og virkan þátt á atvinnumarkaði.
Obba
Skrifa ummæli