mánudagur, desember 17, 2007

Veikindi og próf

Undanfarnir dagar hafa verið dáldið svona óeðlilegir ef svo má segja. Arnar Kári hljóp allur upp í útbrotum eftir annars skemmtilega ferð í dýragarðinn á laugardaginn og síðan þá höfum við bara hreinlega verið með hann hjá læknum. Læknahelgin okkar byrjaði á laugardagskvöldið á læknavaktinni þar sem annars frekar þreyttur læknir tók á móti okkur. Mér leist ekkert á kauða sem virtist frekar vilja komast af vaktinni en að greina hvað væri í rauninni að hrjá drenginn. Hann greindi hann með einhvern vírusinn og sendi okkur heim. Um nóttina versnaði gutti heldur mikið og var allur líkaminn þá orðinn útsettur í ljótum útbrotum og andlitið þrútið og flekkótt. Læknirinn sem kom þá var nú sammála okkur og fannst þetta líta svona frekar illa út gaf honum antihistamín við ofnæmisviðbrögðunum og eftir klukkutíma virtist þetta eitthvað vera að hjaðna. Hann kvaddi okkur svo með þeim orðum að ef að tunga og varir færu að þrútna og við sæjum að hann færi að erfiða við öndun ættum við að hringja á 112 eða fara strax upp á spítala. Lillinn væri augljóslega með ofnæmi fyrir einhverju en hugsanlega gæti vírusinn í kannski bland við eitthvað annað verið orsökin. Í nótt vöktum við svo Arney og Pippa um 2 leytið því okkur leist ekkert á blikuna. Hann var aftur orðinn útsteyptur í upphleyptum útbrotum og öndunin hávær og þegar maður horfði á brjóstkassann þöndust við- og rifbein meira út en vanalega. Foreldrarnir keyrðu í loftköstum uppeftir með lillan hálfsofandi í aftursætinu og ég get sagt að þá var ég farin að skjálfa. Við höfðum velt því fyrir okkur hvað gæti hafa triggerað þetta og áttuðum okkur á því að bæði rétt áður en útbrotin birtust í fyrstu og svo aftur í gærkvöldi hafði Arnar fengið eitthvað sem innihélt hnetur. Við þekkjum lítið hnetukríli ansi vel og höfum lært að þekkja allt um þann óvætt og vitum að í þeim efnum er allur varinn góður. Því var ekki um annað að ræða en að þeysast uppeftir. Ofnæmi geta birst án nokkurs fyrirvara og við vitum að með bráðaofnæmi hefur fólk stundum orðið of seint. Það var því ekki í boði og við fórum aðeins sáttari frá slysadeildinni. Litli gaurinn er augljóslega með einhver ofnæmisviðbrögð eins og áður hefur komið fram en læknunum fannst engin ástæða til að óttast. Öndunarvegurinn var ekki þrengdur heldur var hann kominn með astma sem orsakaði öndunarerfiðleikana. Nú er ég sem sagt enn og aftur á leiðinni með hann til læknis til að panta ofnæmispróf sem við fáum svo eftir áramót. Við þurfum því að fylgja ráðum þeirra sem vita og reyna að sniðganga hnetur, egg og fisk eftir besta megni þangað til annað kemur í ljós.

Styrmir mætti svo í síðasta prófið sitt í morgun ósofinn og úttaugaður. Hann útskrifast alveg örugglega með tvo mastera héðan. Annan í transport og logistic og hinn sem fyrirmyndar fjölskyldufaðir. Það er sko breytt sem áður var að maður gat farið útsofinn og vellærður í próf. Nei nú er bara að duga eða drepast og jú standa sig vel allan veturinn því það gæti farið svo að maður nái varla að opna bók fyrir lokaprófið - hver veit!


Við öndum þó léttar í dag en í gær, þakklát fyrir það að eiga góða vini hér sem eru alltaf tilbúnir að aðstoða, þrátt fyrir að hafa nóg á sinni könnu, þegar eitthvað kemur uppá.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Amma fær nú bara áfall,er í vinnunni og vissi ekki að þetta hafi þróast svona.Vona að allt sé í lagi, hringi fljótlega. knús og kossar amma Greta.

Anna K i Koben sagði...

Óþarfi að fá áfall - allt í góðu hér :)
Mætum á klakann eftir 2 daga. Birgir telur niður dagana.
Sagði mér í gær að tveir dagar væru ekki svo mikið, ahha.
kv.anna

Nafnlaus sagði...

Vona að allt sé í sómanum með litla kallinn! Hann hristir þetta eflaust af sér eins og hann á kyn til! Hlökkum til að sjá ykkur,
Helga og Hafnfirðingarnir.