mánudagur, nóvember 12, 2007

Hagfræðíska

Það er oft erfitt fyrir hinn almenna borgara að halda athyglinni þegar kemur að tali um vísitölur og gengisjöfnuð. Sjálf hef ég blessunarlega mann mér við hlið sem hefur svo ansi oft þurft að útskýra sama hlutinn. Fyrir nokkrum árum buðu bankarnir 100% lán á nær engum vöxtum, eða svo var sagt. Sumir keyptu sér fullt og aðrir breyttu gömlum lánum og allt voru þetta mikil gylliboð. Í dag er ástæða til að hafa áhyggjur. KB banki eða eigum við að segja ljóti kallinn - arðrænir landann og nú er svo komið hjá mörgum að eftir tilkynningar um hækkun vaxta húsnæðislána uppí hvað 7% er líklegt að fasteignamarkaðurinn sé staðnaður eða þó frekar á blússandi ferð niður á við. Fasteignasalar halda þó afram að koma fram í fjölmiðlum og segja markaðinn blómlegan sem aldrei fyrr, ahaaaa. Það sem verra er að góðu lánin sem áður fyrr voru þau bestu sem sést höfðu í langan tíma eru núna orðnir fjötrar fyrir marga. KB banki er vissulega ekki bara að hugsa um að græða eins og allir segja heldur líka að reyna að halda sér á floti. Bankarnir eru ekki með peningatré eða einhverjar aðrar peningamaskínur innandyra - því peningar vaxa ekki á trjám. Þeir taka lán fyrir þeim lánum sem þeir lána og þannig koma peningarnir - auk færslugjalda og einhverra vaxta af sínum lánum og þess háttar en mergur málsins er að enginn vill tapa og allir eru að hugsa um sig. Þegar manni er boðið gull þá hlýtur maður að þurfa að gera eða gefa eitthvað í staðinn. Það er enginn svo gjafmildur að hann sé tilbúinn að útdeila peningum af því bara - eða að minnsta kosti mjög fáir og alveg örugglega ekki fyrirtæki sem vinna við að búa til peninga með ýmsum leiðum. Mér finnst þetta súrt eins og öllum öðrum en það er líka súrt að hugsa til þess að fyrirtæki eins og KB banki geti sett jafn fáránlegar klausur í samninga sína eins og: Ef ég lána þér þá ertu skuldbundinn mér í hvað 40 ár - sama hvað. Eða ef ég lána þér húsnæðislán á 4% vöxtum þá get ég, ef ég hef tekið of mikið af lánum og lánað of mörgum, ákveðið seinna meir að banna öðrum að taka yfir þín lán þegar þú vilt selja - ekki nema kaupandi þinn sé tilbúinn að greiða 7%vexti af lánunum.
Nú er bara að sjá hvert þetta allt stefnir. Held að einhver góður ráðgjafi ætti að koma fram og segja fólki að nú sé tími til að hægja á sér - gera þetta en ekki hitt með hag einstaklinganna í huga. En hverjum á að treysta í græðgissamfélagi dauðans.
Ég veit bara að þegar ég stóð í mínum fyrstu fasteignarfjárfestingum á dögunum þá hefði ég viljað láta þýða allar klausurnar, því fyrir mér voru sumar á einhverju tungumáli sem ég hef aldrei nokkurn tíman lært.

Engin ummæli: