miðvikudagur, október 31, 2007

Tímamót

Nokkrir góðir vinir virðast vera á förum frá dönsku höfuðborginni. Þetta hefur verið dálítið merkileg, ný lífsreynsla að kynnast fólki sem á, í byrjun, ekki endilega neitt sameiginlegt með þér nema kannski það að þið eruð nágrannar með svoooo mikla þörf fyrir félagsskap hvers annars. Það fær enginn sérstakan aðlögunartíma því flest þurfum við staðgengla fyrir ömmur, afa og nánustu vini og fjölskyldu sem eru langt langt í burtu. Það er líka dálítið skemmtilega skrítið að koma úr umhverfi þar sem foreldrar, tengdaforeldrar, systkini, ömmur, afar, vinir, vinnufélagar og kunningjar eru allir í seilingarfjarlægð. Maður skreppur ekki í 10-11 seint að kvöldi án þess að hitta alla veganna einn sem maður stoppar til að spjalla við auk þess að heilsa nokkrum öðrum. Þannig er þetta á litla Íslandi eða kannski bara Vesturbæ - Seltjarnarnesi en alls ekki hér. Það er nú bara þannig að eins og manni líður vel í fjöldanum hér þar sem maður þekkir eiginlega aldrei neinn þá sakna ég þess heilmikið að sjá ekki reglulega þessi kunnuglegu andlit sem bara gefa manni þó ekki nema smá bros og nikk. Nú er Arney nágrannakona mín á förum. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki stokkið upp í kaffi og smá spjall. Það var oft ansi nauðsynlegt að hitta góða konu þegar maður var svona endalaust heima yfir vetratímann hér fyrsta mánuðina í nýju landi með gaurana heima sem voru alveg eins og ég að venjast nýjum aðstæðum. Á sama tíma kom það líka fyrir að nýja vinkonan gat þurft að sjá ýmislegt sem maður vill nú yfirleitt ekki að aðrir sjái á þessu fyrstu stigum í nýju sambandi eins og öskurköst barnanna og bara úútúrþreytta móður. En allt það gerir þessa reynslu líka sérstaka og lærdómsríka - merkilega. Maður þekkir orðið fjölskyldumeðlimi og vini hinnar með nafni og meira til þrátt fyrir að hafa aldrei hitt þá. Því á ég eftir að sakna þessara vina.

Danska gengið mun þó án efa halda áfram einhverjum skemmtilegum hittingum í hraðanum á Íslandi. Konukvöldin okkar góðu sem hafa orðið að reglu hér munu að minnsta kosti halda sér, það er víst.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er það besta við svona útlönd. Allir nýju vinirnir sem maður eignast.