fimmtudagur, september 27, 2007

Heilbrigði

Forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins í dag lýsir hugsunum mínum þessa dagana. Ég hef verið að velta því fyrir mér í æ auknari mæli hvað taki nú við hjá mér þegar við komum heim. Ég var mjög ánægð að mörgu leyti á mínum gamla vinnustað. Vann með góðu fólki og er reynslunni ríkari, svo sannarlega, en launin eru hins vegar til skammar og nú hitnar í minni. Ég gat engan veginn sett það í samhengi að ég væri að vinna mikilvægt og vel metið starf þegar krónurnar á launaseðlinum voru ekki hærri en raun bar vitni. Sumum finnast þessi rök hégómafull og segja að peningar séu ekki allt og mun mikilvægara sé að vera í starfi sem gefur af sér (þá allt annað en peninga) heldur en að vera í öðru þar sem aðeins krónur standa eftir og ekkert annað.
Já ég veit ekki. Lífið gengur vissulega út á allt annað en það sem verður keypt. Hins vegar þá finnst mér það afar mikilvægt að geta klárað reikninga án þess að allt rauðglói og maðurinn minn sér til þess að það gerist ekki. Einmitt það angrar mig pínulítið - eða bara mikið. Ég gæti ekki með neinu móti unnið mína vinnu og framfleytt fjölskyldu minni, ein og sér, ef þess þyrfti.

Stórum láglaunastéttum virðist fjölga á Íslandi í dag. Ég held að við séum á þeim tímamótum að nú þurfi landinn að spyrja sig hvert við viljum stefna því það er yfirleitt erfiðara að grípa til aðgerða eftir á. Nýjasta mynd Michaels Moore Sicko ætti að vera víti til varnaðar fyrir okkur.
Ég segi það enn og aftur. Ég hræðist of mikinn bláma í heilbrigðisráðaneytið. Nú er spurning um að vera skynsamur en ekki gráðugur. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins að miklu leyti getur ekki verið góð.
Nú þurfum við að fara að hugsa um þjóðfélagið í heldina en ekki hver um sinn rass. Hinn ríki segir: "Ég vil bara geta borgað fyrir almennilega þjónustu. Ég vil geta komist að þegar ég þarf og það til sérfræðinga en ekki á biðlista" Ok! sammála en viljum við á sama tíma að þeir sem ekki eiga alla þessa aura sem til þarf lendi aftast. Ekki ég!

Sumir hafa ekki mikið val. Sumir fá engin tækifæri, hafa ekki hæfileika til að átta sig á tækifærum og hafa ekki möguleika á að grípa þau ef þau gefast.
Eyðum frekar aðeins meiri peningum í þetta kerfi. Gerum það betra - fyrir alla.
Hækkum skattprósentuna um segjum 2% og látum þau renna óskert í heilbrigðiskerfið. Við þurfum að borga fyrir gott kerfi - það er víst. Er ekki mannúðlegra að hafa það opið fyrir þá sjúku en ekki aðeins þá ríku???

Þetta er mér mikið hjartans mál.

7 ummæli:

Svetly sagði...

..hefði ekki getað orðað þetta betur - er hjartanlega sammála þér !!!

Nafnlaus sagði...

Sammála!

Önnu í pólitíkina!!

Guðrún Birna sagði...

Góð! Held að Gulli ætti að ráða þig sem sérstakan ráðgjafa.. og þetta er svo ótrúlega flott orðað hjá þér - vekur mann til umhugsunar. Er svoldið að spá í sama varðandi menntakerfið... HVENÆR KEMST SÍMINN Í LAG HJÁ ÞÉR??? ;-)

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr!

kv, Áslaug

Nafnlaus sagði...

Já sko!

Ég treysti á að þú stofnir Heilbrigðisflokkinn fyrir næstu kosningar, færð mitt atkvæði :-)

Kveðja,
Linda.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ.
Ég kíki reglulega á bloggið þitt og mér finnst þú mjög skemmtilegur penni. Ég er sammála þér með heilbrigðiskerfið, ekki gott að hafa alltof blátt blóð þar.
Við munum verða nágrannar þegar þú flytur til Íslands, ég var að kaupa íbúð á Rekagranda, rétt hjá þér. Hilmir fer líka á Gullborg, vonandi sömu deild og Arnar Kári:o)
Heyrumst,
Harpa Thor

Anna K i Koben sagði...

Jiii en geggjað Harpa.
Er bara farin að hlakka til að flytja í hverfið. Greinilega eðal hverfi með eðal fólki. Nú þurfum við bara að ná systur þinni á grandann :)
bestu kveðjur anna