
Það er verið að laga mann að mörgum nýjum siðum þessa dagana. Maður á að mæta í skólann sinn kl 9.30, vera stilltur og prúður með hinum börnunum, ekki bíta eða hrinda (hef nefnilega fengið smá smakk af henni Rannveigu Heklu vinkonu minni) og svo á maður að borða með gaffli og skeið og drekka úr venjulegu glasi. Já það er margt lagt á lítinn mann. - Arnar Kári
Aðlögunin átti að fara þannig fram að ég væri með honum allan tímann fyrstu þrjá dagana. Á fimmtudeginum átti ég svo að fara frá í smá stund og allt virtist stefna í súper aðlögun. En... á fimmtudeginum þegar ég kvaddi varð drengurinn allt annað en sáttur, eins og gengur og gerist í aðlögun.
Þegar ég var búin að standa fyrir utan útidyrnar í 5 mín og naga allar neglurnar upp til agna þá gat ég ekki meir. Þá var drengurinn líka farinn að missa takt vegna andateppu og þá var mér nú öllu nóg boðið.
Ég hef nú verið viðstödd aðlögun einu sinni áður og hún gekk nú aðeins betur en þetta. Jæja við hægðum því á ferlinu og ætluðum að prófa aftur degi síðar. Þá fékk pabbinn að fara með strákinn þar sem hann er ekki í tímum á föstudagsmorgnum og kannski aðeins meira töff en mamman í þessum efnum.
Nei það hafði engin áhrif, pabbinn gat heldur ekki farið þegar hann heyrði barnið öskra eins og það væri verið að aflima hann.
Greyið þekkir náttúrulega ekkert annað en að vera hjá okkur. Fer því miður á mis við það að vera skilin eftir í dekurlæri hjá ömmum og öfum og er því ekki með það á hreinu að þegar mamma og pabbi fara að þá eru þau ekki að stinga af fyrir fullt og allt.
Planið fyrir mánudaginn er að ég skilji hann eftir í 15 mín og svo bætum við nokkrum mínútum við á hverjum degi þangað til að snúlli áttar sig á því að við erum sko ekki að skila honum, litla yndinu okkar.
3 ummæli:
Skil svo hvernig þér líður Anna mín. Það er hrikalegt að skilja börnin grátandi eftir ;( úfffff. LS er orðin nokkuð sátt við leikskólann sinn en það tók smá tíma.
Helgar-kveðja
Maja
Æ litla skinnið.
Sumir eru bara meiri blóm en aðrir. Gott að þú hefur nægan tíma í þetta ;-) Ég slapp sem betur fer við svona barning og hefði örugglega gefist fljótt upp ef þeir hefðu mótmælt harðlega. Þeim var bara alveg sama þegar ég fór...
Gangi ykkur vel,
Linda.
Oooo þetta er svo erfitt!! En vonandi að þetta gangi fljótt yfir og að þá taki jafnvel við tímabil þar sem hann neitar að fara heim hehe. Gangi ykkur vel- hugsa til ykkar!
Kveðja Þóra.
Skrifa ummæli