Ég nýtti tækifærið í gær og angraði nokkrar góðar vinkonur með löngum og djúsí símtölum. Nei ekkert nýtt í fréttum heldur bara svona spjall sem er alveg bráðnauðsynlegt stöku sinnum. Reyndi að ná sambandi við fleiri en greinilegt að skrúgöngur og skemmtanir hafa haft vinninginn. Þessi frídagur þekkist ekki hér í Danaveldi og er með öllum líkindum séríslenskt fyrirbæri. Okkur hjónunum greinir á um gildi þessara fimmtudagsfrídaga sem eru okkur Íslendingunum svo kunnugir. Styrmir er ekkert sérstaklega hlynntur þeim en ég er hins vegar algjörlega á þeirra bandi. Þegar fólk fer að tala um að leggja þessa frídaga niður þá stend ég upp og segi NEI. Mikilvægi þessara daga er að mínu mati meira í dag en nokkru sinni fyrr. Dagur eins og sumardagurinn fyrsti er ætlaður fjölskyldunni. Skrúðgöngur og skemmtanir eru um allan bæ með fjölskylduna í huga. Það er þó alls ekki þannig að mér finnist þurfa húllumhæ og blöðrur til að eiga góðan dag heldur er þetta skemmtileg tilbreyting frá hversdagslegum rútínum og svo er líka afar ólíklegt að foreldrar velji kringluferð á frídegi þegar loksins eitthvað er í boði fyrir fjölskylduna.
Ég lá sem sagt í símanum og blaðraði mest megnis af deginunum enda enginn sumardagur hér. Við höfum mátt þola kulda (12°c, rok og rigningu) núna í heila 3 daga og nennum varla út úr húsi. Arnar Kári er líka á þeirri línunni að vakna á slaginu 6 á morgnanna eftir nokkra sjússa um nóttina og taka svo tvo langa blunda áður en dagurinn er allur. Því var góð tilbreyting að geta blaðrað við fólkið heima á meðan hann svaf því tímamismunur og ofsa-þreyta á kvöldin orsakar það að ég er að skríða upp í rúm þegar fólkið mitt heima er að kyngja kvöldmatnum og sá tími því ekki nógu góður fyrir gott símablaður.
bk. Bella símamær
föstudagur, apríl 20, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Heyrðu, tók þig á orðinu og smellti á mig íþróttateipi. Ég kann bara greinilega ekki að beygja mig, er alltaf að togast til og frá! haha.. þetta er ótrúlega sniðugt. Allir ættu að prófa þetta!
Skrifa ummæli