Litli gaurinn minn veldur mér miklum áhyggjum þessa dagana (og einhvern veginn finnst mér nú líklegt að það muni halda áfram í komandi framtíð). Hann er alveg voðalega mikið að flýta sér að verða stór og ná bróður sínum. Hann skríður hér um öll gólf á miklum hraða eins og lítill köttur og er svo farinn að hífa sig upp við allt og ekkert. Þetta hefur kostað nokkur föllin á höfuðið og það líkar mér ekki. Sumir hefðu haldið að sjúkraþjálfarinn og íþróttanördinn (alla veganna í anda) hvetti hann áfram til afreka og fagnaði þessum þroskaáföngum - en svo er ekki. Þetta er alltof snemmt að mínu mati. Hann er svo mikill óviti og virðist ekkert læra af því að detta og meiða sig, heldur bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi hreinlega að hafa hann með húfu hér inni því þó ég viti að höfuðið eigi að þola þessa litlu bompinga þá er mér voða illa við þá. Ég reyni að elta hann eins og skugginn en næ samt ekki að forða honum 100% frá árekstrum. Margir þekkja þetta frá börnum nr.2 eða 3 í systkinahópi. Þau yngri virðast oft vera fljótari til að ná ákveðnum hreyfiþroskaáföngum en þau eldri voru og því nokkuð ljóst hversu mikil örvun eldra systkinið er á það yngra. Birgir Steinn var ekkert sérstaklega seinn til en var þó ekki farinn að skríða fyrr en 9 mán og gekk svo um allt 11 mán. Þýðir þetta þá að ég eigi von á að gaurinn minn verði kominn hér um allt á tveimur jafnfljótum í byrjun maí. GOD!
Ég set hann nú stundum í göngugrindina svona til að fangelsa hann í smá tíma á meðan ég næ að klára eitthvað sem krefst meiri athygli en hann en þá verður hann hundóánægður. Veit alveg hvað vakir fyrir mér. Ég hef sagt það áður að upplifun okkar á því að eiga barn nr.2 er allt önnur en það fyrsta - eðlilega eða hvað. Jú maður er orðinn nokkuð afslappaðri með ýmis atriði en áhyggjufyllri með annað. Ég finn að ég næ ekki að gefa honum alla þá athygli sem þarf til að forða honum frá föllum. Hann er svo snöggur að ég þyrfti helst auka setta af augum í hnakkanum til að hafa control á hlutunum.

Já við mæðurnar fáum að kynnast slatta af áhyggjum eftir að við komum heim af fæðingardeildinni með ungana okkar. Þessum taumlausu áhyggjum okkar er eflaust komið fyrir til þess að forða litlu kjánunum okkar frá hættum. - Og örugglega tekst okkur það oft - við bara vitum ekki af því þar sem enginn skaði skeði.
1 ummæli:
Þetta getur verið erfitt á vissum tímabilum,en við mæðurnar höfum svo mikla aðlögunarhæfni og komumst því yfir þessa erfiðleika eins og ekkert sé. Alla vega þegar við lítum til baka.ma
Skrifa ummæli