Síðasta vika var fyrsta heila leikskólavikan í langan tíma og voru húsráðandi og frú mjög ánægð fyrir vikið. Aftur komin rútína á heimilið sem er öllum góð. Birgir Steinn er enn sem áður hetjan í útlöndunum. Nú fer ég bráðum að hætta að hæla honum fyrir þetta (hætta á að hólið verði að háði) en mér finnst hann bara svo duglegur að ég held svei mér þá að aldrei sé of oft hrósað fyrir þessa feiknargóðu framistöðu. Mamman sá það samt svo greinilega í morgun hversu mikið hann þráir að leika og spjalla. Þegar við komum inn á leikskólann var Hrafn vinur hans af stóru deildinni inni á deildinni hans Birgis og ég sá hvernig Birgir Steinn lifnaði allur við þegar hann sá íslenska vin sinn - þann eina sem er virkilega skemmtilegt að leika við í riddara og sjóræningjaleik. Nokkrum sek. síðar þurfti Hrafn hins vegar að kveðja og þá sá ég líka hve mikið litla kallinum leiddist það. Hann er ekkert að kvarta eða væla - enda þarf það ekki til svo að mamman sjái. Harður nagli, enda sonur pabba síns.
Þegar svona dagar koma langar mig mest af öllu að hafa hann bara heima, en ég veit að með hverjum leikskóladeginum sem líður styttist í að hann geti farið að leika sér á dönsku.
Ég er að hugsa um að fara með hann í dótabúðina á eftir og leyfa honum að tæma baukinn sinn. Hann á nefnilega bauk sem hann fær að setja klink í og núna held ég að það sé komið að fyrsta tíma í fjármál I. Er ekki viss um að leggja pening í banka sé að kenna honum mikið þannig að fyrsta kennslustund mun eiga sér stað í Toys'r us. Svo finnst mér hann líka alveg eiga skilið smá verðlaun.
Annars er góð helgi að baki. Var boðið í geggjað pizzapartý hjá vinum okkar Hrafni, Kristínu og Halla á föstudaginn og fengum góða gesti í mat á laugardaginn Örnu, Rannveigu Heklu og foreldra.
Maður er örugglega manns gaman, það er víst.
mánudagur, mars 19, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Skil þig vel - stundum langar mig enn að pakka KS í bómul og hafa hann hjá mér alltaf. Birgir Steinn er ekkert smá duglegur og það má alveg hrósa og hrósa og hrósa!
GB
Æ krúttið.
Það er eflaust einmanalegt að kunna ekki að tala við hina krakkana. Hann verður örugglega farinn að spjalla áður en sumarið er liðið.
Kveðja,
Linda.
Skrifa ummæli