þriðjudagur, janúar 16, 2007

leikskólamál

Lífið snýst um leikskólann og aftur leikskólann á Axel Heides þessa dagana. Aðlögunin hefur gengið svo vel að ég hef hreinlega ekki þorað að tala um það. Hef verið að bíða eftir bakslagi en vona að það láti ekkert verða af því að mæta á svæðið. Birgir byrjaði sem sagt á miðvikudaginn fyrir tæpri viku og var skilinn eftir á 3.degi sem er svona ca. viku fyrr en ég hafði planað. Í dag fékk pabbi hans fingurkoss og alles þegar hann veifaði til hans þar sem hann sat í gluggakistu leikskólans og horfði á eftir pabba sínum út um gluggann. Vopnin í þessari viðureign hafa verið legókubbar sem hann átti að fá í jólagjöf en fékk ekki sökum gífurlegs magns af pökkum á þeim tíma. Því var ákveðið að legókassinn biði annars tilefnis og þar sem drengurinn er að standa sig eins og hetja var ákveðið að verðlauna vel. Okkur foreldrunum líst líka voða vel á þetta allt saman þrátt fyrir að aðbúnaður til leiks og næringar sé langt frá því að uppfylla íslenskar leikskólakröfur. Börnin þurfa nefnilega að koma með nesti á mánudögum, fá eingöngu heitan mat í hádeginu á fimmtudögum og hina dagana fá þau rúgbrauð og frikadellur. Leikskólinn er auk þess á annarri hæð (skv. íslenskum hæðum) í gömlu fjölbýlishúsi og hefur ekki leiksvæði fyrir utan heldur ganga börnin öll í beinni röð ca. 50 m. að útileiksvæði og þurfa að fara yfir umferðagötu. Þegar ég fór fyrst að skoða þennan leikskóla þá kolféll hann náttúrulega á leikskólaprófinu en þrátt fyrir allt þá var yfirbragðið heillandi og starfsaldur þeirra sem vinna þarna allra yfir 5 ár. Því réð góð tilfinning og meðmæli frá Kristínu og Halla, foreldrum Hrafns vinar hans Birgis, að lokum úrslitum. Hrafn er nefnilega á eldri deildinni og því ansi mikill stuðningur af því að vita af honum þar. Hef einmitt fengið nokkrar peppræðurnar frá mömmu hans enda nokkuð ljóst að aðlögunin er erfiðari fyrir móðurina en barnið :(
Þrátt fyrir góðan leikskóla að þá eru hinir óhjákvæmilegu fylgifiskar leikskólans strax farnir að gera vart við sig því strákarnir eru skyndilega báðir komnir með mikið hor í nös og síhóstandi. Reyndar vorum við öll farin að finna fyrir smá kvefi áður en við komum aftur út og því ekki hægt að klína öllu á börnehaven en eins og ég þekki frá fyrri tíð að þá hata bakteríur og veirur ekkert að heilsa uppá leikskólakrílin.
Nóttin var sem sagt skemmtileg, þeir bræður hóstandi til skiptis og vaknandi, ca. 40 sinnum, pirraðir yfir því að ná ekki að koma lofti inn og út um nefið.
En hvað er svefnleysi þegar leikskólastrákurinn er jafn sáttur við lífið og hann er?
Ekki jack sh.....

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Anna,
mikið eru þetta góðar fréttir, ég get vel ímyndað mér að mamman hafi verið með smá í maganum fyrir litla guttann sinn því frænkan er líka búin að hafa léttar áhyggjur af þessu danska leikskólamáli ;). En það ætti svo sem ekki að koma á óvart að Birgir Steinn Íslands víkingur tekur þetta með trompi og stendur sig eins og hetja!

Nafnlaus sagði...

já, það er ekki að spyrja að því :o)
gott að heyra að allt gangi vel.
stórt stubbaknús frá mér og mínum.
anna.

Guðrún Birna sagði...

Æði að heyra að allt gengur svona vel. Þið standið ykkur eins og hetjur (og sérstaklega mamman;-)).
Bestu kveðjur til ykkar allra!
GB og strákarnir