mánudagur, desember 11, 2006

jólaminningar

Já það er vissulega rétt hjá henni móður minni að þegar maður er svona heima þá óneitanlega hugsar maður öðruvísi heldur en þegar dagurinn var pakkaður af verkefnum. Mætt í vinnu kl. átta eftir að morgunrútínan var afstaðin. Morgnarnir voru oft orkusugur... Allt eftir því hvoru megin barnið fór framúr rúminu. Í vinnunni ótal verkefni sem biðu - eftir vinnu ljúka ýmsu, ná í gríslinginn í lekskólann, kíkja til ömmu/afa eða vina, heim að elda, svæfa.........
Dagurinn var búinn og heilinn oft gjörsamlega búinn.
Þessa dagana er heilinn hins vegar sjaldan búinn á því og alltof fáir vinir og fjölskyldumeðlimir til að blaðra í kaf og því læt ég þetta bara flakka á blogginu :)

Nú þegar jólin nálgast rifjast upp fyrir mér hvað það var sem sagði mér að jólin væru á næsta leyti þegar ég var barn. Það eru litlir ómerkilegir hlutir sem ég nú í seinni tíð minnist með notalegri tilfinningu.
* Í byrjun desember mánaðar var haldin jólasýning fimleikadeildarinnar. Sýningin var stutt og ómerkileg en hátíðleg í minningunni. Fimleikakrakkar sýndu það sem þeir voru að fást við, í mínu tilfelli daginn út og daginn inn, því líf mitt hreinlega snerist um fimleika á mínum yngri árum.
* Laufabrauðsbakstur í Valhúsaskóla var alltaf í fyrstu eða annarri viku desember mánaðar. Þá mættu skólakrakkarnir með foreldrum, ömmum og öfum og skáru út í laufabrauð. Það var skemmtileg hefð og gaf skólanum öðruvísi andrúmsloft í desember.
* Jólapróf – að sjálfsögðu. Þegar maður átti að vera að lesa undir jólapróf þá stalst maður til að gera hluti sem maður átti alls ekki að gera fyrr en eftir próf. Hlusta á jólalög, skrifa jólakort og baka smákökur með mömmu svo eitthvað sé nefnt.
* Jólabíltúr á aðfangadag – jólapakkaútkeyrsla með pabba til frændfólks og konfektkassaútkeyrsla til viðskiptavina pabba.

Það hafa allir svona lista og þegar við verðum eldri þá eignast börnin okkar líka svona lista.

Ég vona bara að á lista barnanna minna verði ekki jólastress

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var fyrir nokkru búin að skrifa heilmikið um þennan pistil þinn Anna mín en hann hefur greinilega ekki skilað sér. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við hann er hvað hann inniheldur dásamlegar minningar sem svo margir geta samsamað sig við og ég er viss um að ef þið haldið í einhverjar af þessum hefðum munu börnin ykkar upplifa sömu sældartilfinninguna og við hin sem höfum og erum að njóta "jólastressins" og í raun gætum ekki verið án þess.
Skrifar amma á Sjafnó