fimmtudagur, desember 07, 2006

barnauppeldi

Barnauppeldi er örugglega eitt kröfuharðasta verkefni sem maður tekur sér fyrir hendur. Foreldrar eru stöðugt að reyna að kenna barni sínu rétt frá röngu og aðstoða það við að fara eftir reglum heimilis og samfélagsins. Okkur finnst þetta hlutverk oft ansi erfitt því við erum mjög meðvituð um að reyna að klára þetta jobb eins vel og við mögulega getum. Við samræmum reglulega hugmyndir okkar að góðu uppeldi yfir kaffibolla og þrátt fyrir að vera nokkuð viss um að vera ágætir uppalendur upplifum við eintómar efasemdir í okkar garð.
Hvernig er hægt að vera alltaf viss um að maður sé að gera rétt? Að sjálfsögðu viljum við að barnið okkar sé alltaf glatt en það þýðir að þá verðum við að veita honum allt sem hann girnist sem gefur mjög líklegast slæma útkomu eftir nokkur ár. Við losnum þó við frekjuköst og önnur leiðindi en nokkuð líklegt að við fáum það 1000 fallt í hausinn seinna meir. Hver vill eiga óþolandi freka krakkann? - ekki ég!
Við keyptum okkur eina bók til að styðjast við í þessu erfiða verkefni og grípum í kafla og kafla þegar við erum algjörlega ráðþrota og oft kemur hún að góðu gagni. Samt er maður aldrei sammála öllu því sem bókin segir enda vill maður alls ekki ala barn algjörlega upp eftir einhverri bók. Maður notar bókina í bland við eðlisávísun sína og minningar af hinu og þessu frá okkar eigin uppeldi.
Það er rík ástæða fyrir þessari bloggfærslu því hugur okkar hefur verið á þessum nótum að undanförnu. Birgir Steinn hefur verið að testa hæfileika okkar á þessu sviði og í gærkvöldi vorum við eins og slytti í sófanum löngu fyrir skaup, algjörlega orkulaus eftir daginn. Já sumir dagar eru hreinlega betri en aðrir og þessi var ekki alveg einn af þeim. Þessi börn kunna sko að tæma tankinn og það sem betra er að í morgun vaknaði stubbur glaður í bragði eins og ekkert hefði í skorist.
Amman og afinn voru ákkúrat að hefja skype-spjall við okkur í gær þegar ein frekju-arían fór í loftið og ég heyrði hvernig hjartað í þeim gömlu tók kipp. Ömmur eru sérstaklega lítið hjálplegar þegar kemur að þessu því þær eru löngu búnar að gleyma hvernig var að vera með lítil börn og finnst þar að auki ekkert þurfa að siða ömmubörnin til, þrátt fyrir að börnin þeirra muni nú alveg eftir að hafa verið skömmuð ;) Þær muna hins vegar bara eftir góðu börnunum sínum með brosin sætu.
En þetta segir mér svo margt – maður gleymir þessum mómentum og því eru bara góðir tímar framundan, þ.e þegar þessu uppeldi lýkur....... sem er víst ekki alveg á næsta misseri :)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mundu bara að í svona baráttu, versnar hegðunin oft áður en hún batnar. Þolinmæðin er lykilatriði. Good luck!
kveðja Áslaug

Heklurnar sagði...

Jii hvað ég hlakka til einhvern daginn!

-stella

Nafnlaus sagði...

Já það er miklu erfiðara að vera amma og afi,auðvitað verður maður stundum að taka á þessum krílum.Er sammála frekir krakkar eru hræðilega leiðinleg.Gangi ykkur vel í uppeldinu, veit að þið standið ykkur vel og Birgir og Arnar eru heppnir að eiga ykkur.
amma Greta

Guðrún Birna sagði...

Ég hef mikla trú á ykkur og á Birgi Steini. Mér heyrist þið vera mjög meðvituð og alveg til fyrirmyndar og það mun skila sér á endanum... pottþétt fyrr en seinna. Mamma mín segir einmitt að ég hafi alltaf verið brosandi og við systkinin algjör draumur í dós en ég leyfi mér að efast um að alltaf hafi þetta verið dans á rósum. Sem betur fer gleymum við... :-) Knús, GB