föstudagur, október 03, 2008

Óvæntar uppákomur

Það er búið að vera þónokkuð af óvæntum uppákomum uppá síðkastið svo ekki sé meira sagt. Snjórinn í morgun sló þó öllu við, alla veganna hjá yngri kynslóðinni. Synir mínir skríktu og iðuðu að komast út þegar þeir litu út um gluggann í morgun. Birgir Steinn klæddi sig í snarhasti og var kominn út í snjóinn 5 mín síðar. Velti sér uppúr snjónum með brosið út að eyrum og minnti mig einna helst á Jóakim Aðalönd í peningatanknum sínum. Svo dritaði hann snjóboltum í alla sem gengu fram hjá, þeim til mikillar ánægju geri ég ráð fyrir. Á meðan þurrkuðum við stírurnar úr augunum og leituðum að einhverju klæðameiru en pjötlunum sem liggja enn á stólunum frá Spánarferðinni góðu.

Þetta eru erfiðir tímar fyrir marga og lítið er fjallað um annað en sjóð 9 og Skitnismálið. Við sem svo blessunarlega vorum ekki nægilega rík til að eiga margar millur í hlutabréfum og náðum einhvern veginn aldrei að detta almennilega í það og fá okkur jeppa, fellihýsi, hjólhýsi og snjósleða á "afar hagstæðum" lánum urðum fyrir tiltölulega litlu tjóni. Ennþá að minnsta kosti. Það á þó ekki við um alla og þeir sem eru að skella harkalega til jarðar finna líklegast til á mörgum stöðum.
En hver svo sem staðan er fjárhagslega þá er þetta í alvöru talað ekki það sem skiptir öllu. Eftir sorgaratburði vorsins finnst mér þetta minniháttar.

Nú verður bjartsýnis- en um leið raunveruleikabylur að ganga yfir landann. Á erfiðum tímum verður fólk að reyna að líta inná við og hugsa um það sem skiptir virkilega máli. Líta á þetta sem lærdóm og virkilega læra.

"Eina leiðin til að fá allt sem þú vilt er að vilja allt sem þú færð" (baksíðupistill Birgis Arnars úr fréttablaðinu á mánud. síðasta)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh hvað ég er sammála þér.

En Lína Sól hló nú bara þegar hún fékk snjóbolta í rassinn í morgun ;) Henni fannst það bara gaman, hún er nefninlega svo hrifin af honum Birgi ;)

Kveðja úr næstu blokk....

Ásta Sóllilja (Sólin) sagði...

Æ já Anna. Þetta er svo rétt.