fimmtudagur, október 09, 2008

Koma svo!

Staðan er afar svört ef svo má segja og fólk er hrætt og reitt. Sumir eru reiðir útí Davíð Oddsson, Lárus Welding, Hannes Smárason, gjaldkerann, fjármálaráðgjafann í bankanum eða jafnvel sig sjálfan. Á svona tímum er víst afar óhagstætt að vera reiður. Reiðin fær mann til að gera hluti sem maður sér eftir. Breytir manni í skrímsli sem maður hefur enga hemil á... Reiðir Íslendingar sjást hins vegar víðsvegar eins og gargandi mávar og reyna í örvæntingu að breyta því sem verður ekki breytt.
Gróa segir að háværir og yfirgangsfrekir Íslendingar hafi fælt Lárus Welding og fjölskyldu út úr matvöruverslun og komið í veg fyrir að hann fengi með börnum sínum að versla inn mjólk og brauð. Einkaþoturnar og aðrar eignir stórforstjóranna eru vaktaðar og Geir H Haarde og Davíð Oddssyni er fylgt af lögreglu um götur borgarinnar.
Enn fremur eru sögusagnir um örvæntingafulla bankastarfsmenn sem sagðir eru hafa tekið líf sitt farnar að ganga manna á milli.
Þetta eru hörmungar - vægast sagt.

Íslendingar hafa þó lent í hörmungum áður.
Farsóttir eins og Svartidauði voru alvöru hörmungar. Þar upplifði fólk að heilu fjölskyklurnar voru þurrkaðar út. Fólk hjúkraði hverju öðru í nokkra daga en kvaddi svo allt sem það lifði fyrir án nokkurrar vonar um lækningu.

Við getum hins vegar læknast af þessu, þ.e ef fólk heldur sönsum. Mannauðurinn er enn til staðar. Öll okkar þekking, metnaður og orka er enn til staðar. Við þurfum bara að komast yfir þetta og jafna okkur og svo er ekkert annað í stöðunni en að læra af þessari dýrkeyptu kennslustund og verða hæfari fyrir vikið.
Það er það bjarta við þetta allt að þrátt fyrir að Bensarnir og þyrlurnar verði kyrrsettar þá fáum við annað tækifæri til að koma undir okkur fótunum og njóta lífsins með þeim sem standa okkur næst.

4 ummæli:

Svala sagði...

sammála anna mín, var einmitt í svipuðum pælingum í dag...hvar er "þetta reddast" mentalitet sem einkennir okkur Íslendinga núna?

Rassabollur sagði...

Nákvæmlega.
Engu við það að bæta.

Nafnlaus sagði...

Alveg sammála þér. Gaman að sjá lifna yfir blogginu þínu :) En við söknum þín líka á yahoo ;)

kv.
Lilja

Ásta Sóllilja (Sólin) sagði...

Orð í tíma töluð Anna mín. Allt of fáar svona raddir sem heyrast. Ég er með í þessu.