Maður vaknar að morgni í næstum nýju landi. Ísland best í heimi er ekki efst á lista hjá næstum neinum. Við hjónin erum í líklegast slæmum málum eins og flestir. Ég námsmaðurinn og eiginmaðurinn sem á í raunverulegri hættu á að missa vinnuna veltum möguleikunum fyrir okkur. Það er ekki beint hægt að segja að við lifum í heimi tækifæranna eins og fyrir nokkrum dögum. Eða það héldum við. Von bráðar fyllist markaðurinn af atvinnulausu, vel menntuðu og frambærilegu fólki. Flestir þessara mættu samviskusamlega til vinnu sinnar á hverjum einasta degi en gerðu sér engan veginn grein fyrir hvert stefndi. Ég á einstaklega bjartsýnann mann sem segir mér að hætta öllum áformum um að hætta námi og hefja atvinnuleit. Nám er vissulega góður kostur í ástandi sem þessu en....... "Við erum afskaplega rík en eigum bara enga peninga" sagði góður maður þegar hann lýsti ástandinu. Það er einmitt vandamálið. Þeir sem eiga stórar fasteignir geta ekki einu sinni komið þeim í verð til að létta á vanda sínum því það er enginn sem getur fest kaup á svoleiðis löguðu í dag.
Eftir kvöldfréttirnar í gær vorum við að ganga frá eftir kvöldmatinn og allt í einu heyrum við litla kallinn okkar hósta og ræskja sig og spyrjum hann hvort að það sé ekki allt í lagi með hann. Hann svarar því játandi og þegar við spyrjum hann hvað hann hafi verið að borða þá segir hann "peninginn" Ha peninginn? Já peningurinn fór í mallann!
Hvað meinarðu, fór peningurinn í mallann? Jamm sagði hann og stakk svo út tungunni - "hann er farinn" og benti svo á bumbuna. Arnar Kári krútt hefur greinilega metið þetta besta staðinn fyrir spariféð.
Nú bíðum við bara eftir að peningurinn skili sér í bleiuna og förum svo og verslum okkur eitthvað uppbyggilegt í bónus. Verst að geta ekki bara rétt brúnleitan peninginn, einhverjum þeim sem gæti talist ábyrgur fyrir þessum hörmungum sem þjóðin er að ganga í gegnum. En á Íslandi hafa valdamenn völd en þurfa aldrei að axla ábyrgð og því geri ég ekki ráð fyrir að það sé með öðrum hætti nú þegar þjóðin er farin á hausinn... Þetta er engum að kenna - þetta er alheimskreppa!
þriðjudagur, október 07, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
He he he he...krúttið. Þið getið þá kallað það "peningalykt" þegar eitthvað skilar sér í gegn!
Stórkostleg bloggfærsla! Svolítið lýsandi fyrir það sem er að gerast með íslensku krónuna....hún er í skítnum!!!
luv, Áslaug
Einmitt!!
Hann er nú meira krúttið.
Kv. Arna
Æhhhj krútt. Brilliant færsla.
Hann er nú meira krúttið ... en sjálfsagt er þetta rétt hjá honum, peningarnir eru örugglega ekki betur geymdir en í mallanum. Ekki hægt að ræna þeim nema gefa manni laxer, spurning um að skoða þennan möguleika.
En Anna mín ef þú þarft að leita þér að atvinnu myndi ég bara taka upp penna og byrja að skrifa ... þvílíkur snilldarpenni sem þú ert :o) átt örugglega eftir að gefa út eitthvað gott verk.
Kv. Inga
Góðar fréttir, amma og afi voru í heimsókn áðan og krónan skilaði sér í bleyjuna og með þvílíkri lykt. Já geymdur er græddur eyrir en kanski ekki í mallanum hans Arnars Kára. kv. amma
guuuuð hvað þetta er mikill léttir, var ekki svo ánægð þegar Arnar benti á mallan þegar ég spurði hvar er peningurinn væri!
Ég er sammála Ingu þú ert snilldar penni... alltaf gaman að lesa færslurnar þínar ;)
hahahaha þvílíkur snillingur. æðislegt móment til að velja til að gleypa pening. gott að hann skilaði sér, nú er bara að fara og leggja hann á sparireikning, nei bíddu annars það er ekki í boði, þá er bara að fara með hann í Bónus og hamstra. Djóka með þjóðfélagið, hehe. Arnar Kári kann á þetta :)
kv Guðrún H
Skrifa ummæli