sunnudagur, janúar 06, 2008

Bóndinn minn

Jólin voru notaleg í alla staði. Það fór vel um okkur á Sjafnargötunni eins og alltaf enda einstakt fólk þar á bæ.
Það var líka ýmislegt brallað fyrir utan almenn árleg jólaboð. Birgir Steinn fékk sinn yndæla sorpudag með afa Óskari en þá er tekið hressilega til í garði eða bílskúr og svo endað á uppáhalds staðnum hans, Sorpu, eftir þrek, svita og tár. Amma Greta segir þessar heimsóknir hans alveg bráðnauðsynlegar og ýmislegt klárist sem hafi staðið til að klára lengi. Verkstjórinn er nefnilega ansi kröfuharður og vinnusamur og afarnir þurfa að hafa sig alla við þegar hann mætir til þeirra í heimsókn. Engar pásur og það verk skal klárast sem hafið er!
Hann fékk líka að taka þátt í að velja eða kannski réttara sagt valdi sjálfur jólatréð fyrir Bollagarðana og við vorum öll sammála að tréð þar sem er alltaf um 3 metrar á hæð hefur aldrei farið yfir 4 metrana fyrr en nú. Birgir Steinn fékk nú líka að skreyta jólatréð og það hjá báðum ömmu og afasettum. Á Sjafnargötunni talaði amman um að tréð hefði sjaldan verið svona VEL skreytt - þ.e mikið skreytt og úti á nesi var þetta svipað. Þar stóðu jólatrésskreytingar yfir í 3 tíma - án pásu því ömmunni þar á bæ hefur tekist að safna hreint ótrúlega miklu skrauti á sínum búskaparárum. Sumt skrautið hefur því verið hvílt á milli ára en þessi jólin fór allt upp því vinnuhesturinn skipaði fyrir. Allt skal upp og áfram nú!
Ég held að hann Birgir Steinn minn sé með ansi ríkjandi bóndagen og því alveg málið að fara að finna býli sem hægt er að koma honum á eftir örfá sumur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ji en krúttað. Það verður flott að fá kappann til að taka lóðina hér í gegn. Þyrfti að gera ýmislegt hérna fyrir utan blokkirnar ;)
Hafið það gott
Maja