laugardagur, janúar 12, 2008

amma Greta í heimsókn!

Við hjónin erum hvort í sínum mömmufaðmi þessa helgina og bara frekar sátt. Styrmir ákvað að skella sér á klakann yfir helgina og mamma ákvað því að koma til frumburðarins, dótturinni til yndisauka. Drengjunum finnst svo sem heldur ekkert leiðinlegt að hafa ömmu sína. Arnar Kári kallar hana reyndar afa enda mikill afastrákur en amman er búin að sjá til þess að því hefur verið breytt með þrotlausum spurningum: "Hver á þig?" Í byrjun sagði hann avva en er nú farinn að segja ammmma - æfingin skapar meistarann......

Við erum búnar að kemba helstu skvísuverslanirnar og nóg er af þeim hér í bæ. Amman er búin að dressa sig upp á útsölunum og ég fengið smá fyrir minn snúð. Svo hötum við ekki að setjast á kaffihús og fá okkur kaffi og meðí og því hafa nokkur slík verið styrkt. Ættarhöfðinginn heitinn hefur svo sannarlega kennt okkur hvernig á að njóta góðra stunda og eins og flestir nautnarseggir vita er það aldrei gert betur en með kaffisopa og einhverju sykruðu með.

Það er því hægt að segja að þessi síðasta önn okkar hér í Danaveldi byrji með meiri krafti en áður hvað góða gesti varðar og stefnir allt í frábæra mánuði í feiknagóðum félagsskap.

1 ummæli:

BJÖRG sagði...

á ekki að fara að setja inn nýjar myndir? ;)