föstudagur, september 07, 2007

Dan-erbía

Við héldum að þegar við fluttum hingað þá værum við ekki bara að velja góðan skóla fyrir Styrmi, gott fjölskylduvænt land með ömmur og afa í hoppfæri heldur líka öryggið. Fréttir undanfarna daga hafa hins vegar strikað yfir hið síðast nefnda á listanum. Átta karlmenn hafa verið handteknir allir af arabískum uppruna og segir lögreglan hér í bæ að staðið hafi til að sprengja upp Nörreport. Nörreport er fjölfarnasta "umferðarmiðstöð" borgarinnar. Þar fara um ekki bara metró lestarnar og S-lestarnar heldur stoppa þar flestir strætisvagnar Kaupmannahafnar. Á háannatíma er varla hægt að þverfóta þar fyrir fólki á leiðinni í eða heim úr vinnu og skóla. Þetta skaut því okkur hér sem öðrum skelk í bringu.
Í kjölfar þessa atburðar og annarra tengdra í heiminum undanfarna daga fer maður óneitanlega að hugsa meira um þessa ógn. Trekk í trekk virðist lögreglan ná að "stoppa" hryðjuverk á síðustu stundu. Eða svo er manni sagt. Er þá takamarki þeirra náð? Er það allt sem þeir vilja? Raska öllu. Ógnin er svo sem ansi gott vopn - en hugsa þeir svoleiðis.
Er takmarkið kannski meira, hreinlega að sprengja og deyða. Hvað veit maður.......maður veit ekkert og því tekur enginn sjénsinn. Ég hef heyrt fjölmarga tala um að þeir hræðist orðið lestarnar. Líði illa að troðast inn í þær á morgnanna, hræddir um að það verði kannski engin lest á morgun.

Það versta við þetta allt er að þetta kveikir ekki bara hræðslu hjá fólki heldur reiði og ósjálfrátt verða saklausir einstaklingar af sama uppruna fyrir barðinu. Hér býr þvílíkur fjöldi af innflytjendum (þ.á.m við) og stór hluti er "slæðufólk" eins og við köllum það. Flestir þessara einstaklinga blandast vel við Danina þrátt fyrir ólíka trú, bakgrunn, hegðun, útlit,,,, allt. Það sem veldur hins vegar áhyggjum er að þeir sem stóðu að þessari hryðjuverkaógn voru allt ungir innfæddir "Danir". Yngstu voru 19 ára og sá elsti held ég um 28 ára. Þetta eru allt strákar sem hafa alist hér upp en bera ekki meiri virðingu en þetta fyrir landi og þjóð.
Óneitanelga vekur þetta upp neikvæðar hugsanir hjá Dönum gagnvart slæðufólkinu og það sem versta er að stór hluti þeirra síðarnefndu eru jafn miklir Danir og hinir hvítu með bjórvömbina.
Þetta er ekki einfalt og engin skólabókalausn á vandanum.

Þegar ég sit og blaðra við tölvuna, með kveikt á útvarpinu haldiði að Kim Larsen gamli kallinn mæti ekki með Mit om natten. Man þegar ég var í 8.bekk í dönsku hjá Gísla Ellerup og hann spilaði fyrir okkur Kim Larsen og lét okkur þýða stíla um hippana í Christianíu. Þá var ekki mikið um svona vandræði eins og nú. Heimurinn breytist ört. Maður hálfpartinn hræðist það sem verður........ um hvað ætli stílar barnabarna okkar fjalli?

Engin ummæli: